Þannig er að ég þarf að skila inn skuldabréfinu mínu til LÍN, helst fljótlega.
Ekkert stóratriði þó ég fari með það eftir helgi, en ég hefði viljað nota daginn til að koma því niðureftir í dag.
En, af því þetta atvikaðist þannig að ég hélt að frumritið væri týnt, og hafði hugsað mér að fara og fá einhvers konar endurprentun hjá LÍN í dag, en hrósaði svo óvænt happi þegar ég fann frumritið í morgun, þá kom það á daginn að ég get skilað því inn í dag, ef ég bara skrifa undir það og fæ til þess tvo vitundarvotta.
...sem er eitthvað að vefjast fyrir mér.
Þannig er að fráþví ég vakna og þartil ég myndi vilja skreppa í hádegishléinu til að skila því inn hitti ég engan af mínum fjölmörgu vinum eða ættingjum. Og ég veit sem er að starfsmönnum LÍN er bannað að veita vottun.
Svo ég brá á það ráð að spyrja samstarfsfólk, sem ég átta mig á að er mögulega pínulítið óviðeigandi eftir stuttan samstarfstíma, en engu að síður taldi ég okkur hafa náð tiltölulega vel saman þessa rúmu viku sem ég hef verið hér. Eins væri mér töluvert létt ef ég þyrfti ekki að bíða þartil eftir helgi, svo ég ákvað að skoða þetta.
Fór það þannig að ég fékk einn vott, sem er stúlka sem ég vinn mest með, en enginn annar þóttist geta vottað það að ég væri í lagi til að skrifa undir hjá LÍN.
Þetta er það sem við í vinahópnum erum farnir að kalla George Costanza moment. Og nú halda örugglega allir sem ég vinn með að ég sé svo mikill kjáni að ég þekki engan sem er til í að skrifa undir hjá mér.
Og eina ástæðan fyrir því að ég deili þessu hér er að mér þykir þetta svo súrrealísk upplifun.
No comments:
Post a Comment