Wednesday, July 14, 2010

Hegðun, Atferli, Framkoma.

Nú er það þannig að fólk hefur oft mismunandi sýn á mannleg samskipti. Gott dæmi er 'ágreiningur' milli mín og Fridda sem kemur reglulega upp um það hvort sé rétt.

Ef einn maður spyr annan hvort hann langi að koma að gera eitthvað, t.d. fara í bíó eða að borða eitthvað eða í sund, hvað sem er þarsem einn eða fleiri eru að fara að gera eitthvað, og spyrja annan hvort hann vilji vera með (án þess þó að verið sé að bjóðast til að borga fyrir viðkomandi eða veita honum aðgang að einhverju sem er lúxusvara og hann kæmist að öðru leiti ekki í, eins og t.d. að bjóða einhverjum að eyða helgi á snekkjunni sinni væri) Við erum bara að tala um spurninguna 'viltu vera með?'

Ef sá sem er spurður kemst ekki, hvort er þá rétt tilsvar. "Sorrý, ég kemst ekki." eða "Takk fyrir, en ég er upptekinn"

Þ.e.a.s. Mitt hugarfar, þegar ég býð einhverjum eitthvert, er að mig langi að hafa viðkomandi með mér, og ef hann kemst ekki, þá er það leitt fyrir mig, þarafleiðandi væri 'sorrý' mögulega viðeigandi svar frá þeim hinum sama. Friddi segir að þegar hann býður einhverjum eitthvert, þá er hann að reyna að gera vel við viðkomandi, og viðeigandi svar sé einmitt öfugt. Hann á að vera þakklátur, og koma því til skila að hann kunni að meta að verið sé að gera vel við hann, þósvo hann komist ekki.

Ég held að þetta sé bara mismunandi hugsanaháttur. Það hvarflar ekki að mér þegar ég býð einhverjum að koma með að ég sé að gera honum einhvern sérstakan greiða. Ég einfaldlega hringi í það fólk sem mig langar að hafa með. Ég geri ómeðvitað ráð fyrir að þetta virki líka öfugt, svo þegar ég er spurður segi ég stundum. "Æj, sorrí gaur, ég kemst ekki."

Þetta kemur flatt upp á vini mína, og mér er sagt að þetta sé eiginlega bara ferlega óviðeigandi svar, og að ég sé meira og minna einn um það að sjá þetta svona.

Hvað finnst lesendum um þetta?

Friday, June 18, 2010

Ég ber ábyrgð.

Sanngirni? Réttlæti? Ábyrgð?

Þetta eru ekki flókin hugtök. En í reynd geta þau verið frekar erfið stundum.

Ég var t.d. að lesa viðtal í Grapevine við Vooral Gerard van Vliet (ég veit, fyndið nafn), hann er í forsvari fyrir hóp fólks sem tapaði sparifé sínu í Icesave reikningum. Í hans sérstaka tilfelli er það ennþá átakanlegra í ljósi þess að peningarnir á hans reikningi áttu að fara í hjálparstarf í Kenya.

Allavega, hann kemur inn á nokkra punkta sem hafa einmitt setið svolítið í mér undanfarið.

Eiga venjulegir borgarar íslands að bera ábyrgð á því sem bankarnir gera? Í stuttu máli, já. Það er nefnilega hin hliðin á lýðræðispeningnum.

Bankarnir gerðu það sem þeir gerðu, annars vegar vegna þess að löggjöfin var óljós og léleg, og hinsvegar vegna þess að eftirlit var allt allt of lítið.

Það eru ýmsar ástæður fyrir því að bankar geri slíkt. Aðallega ofmetnaður og andrúmsloft sem gerir mönnum hátt undir höfði sem virðast geta galdrað fram ótrúlegan gróða á skömmum tíma, án þess að spyrja of mikilla erfiðra spurninga. Það var orðið markmið stjórnvalda að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð.

Í okkar litla landi þarsem helmingaskipti aðal-valdaklíkanna eru lenska, þá auðvitað fór líka einkavæðingarferli bankanna út fyrir allt sem kalla má góða hagfræði. En basically, bankarnir fóru gífurlegu offari af hinum ýmsustu ástæðum. Eigum við að bera ábyrgð á því?

Við sem kusum alþingið til valda sem setti lögin, sem einkavæddi bankanna, sem hélt áfram að kjósa þessa vitleysinga allt fram undir hrun, og ennþá er fólk sem kinnroðalaust kýs Sjálfstæðisflokkinn eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Ríkisstjórnin og Alþingi bera ábyrgð á löggjöf og eftirliti með Fjármálastofnunum. Það er ekki flóknara en það. Það átti að vera LÖNGU búið að skala niður bankana eða senda þá úr landi. Það var ekki gert. Og við, sem þjóð í lýðræðisríki, berum ábyrgð á því Alþingi og þeirri ríkisstjórn sem við kjósum yfir okkur.

Og við erum öll hluti af þessari þjóð, hvort sem þú kaust Sjálfstæðisflokk, Framsókn, Vinstri Græna, skilaðir auðu eða sast heima á kjördag og horfðir á boltann. Þannig virkar þjóðfélagið. Þjóðin ber endanlega ábyrgð á sínu þingi. Við sitjum öll uppi með það sem kemur upp úr kjörkössunum, hvort sem við lendum í minnihluta eða meirihluta með það sem við kusum. Mögulega er það eitthvað ranglátt kerfi, en það er kerfið sem við búum við. En þá var það líka uppá okkur komið að breyta því kerfi, eða flytja úr landi ef við virkilega viljum enga ábyrgð bera á því sem á endanum kemst til valda.

Ef það kemur í ljós að þing og ríkisstjórn voru spillt og lugu að okkur, þá er það upp á okkur komið að hafa betra eftirlit með þeim, og kjósa þá ekki aftur og aftur.

Við þurfum að borga lágmarksinnistæður Icesave, svo mikið er víst. Ég held að Íslendingar þurfi að gera það sjálfsvirðingar sinnar vegna sem þjóð, þó ekki væri meira. Við vorum fullkomlega sátt við að gróðinn frá bönkunum héldu uppi þessari svakalegu bólu hérna og vorum tilbúin að trúa næstum hverju sem var öðru en sannleikanum til að útskýra hvað væri í gangi. Við, sem þjóð, skuldum þessu fólki peningana sína. Bankarnir báru ábyrgð á sínum skuldbindingum við sína innistæðueigendur og lánadrottna, og þeir brugðust. Alþingi og Ríkisstjórnin báru ábyrgð á eftirliti með bönkunum og reglugerð, og þau brugðust. Íslendingar, sem kusu þetta fólk, bera ábyrgð á sínu þingi og ríkisstjórn. Ætlum við að bregðast líka?

Hann van Vliet heldur áfram, og segir að við eigum í raun að borga allar Icesave innistæðurnar og ekki bara lágmarkstrygginguna. Það sem skelfir mig er að rökin hans fyrir því eru ágæt. Einu rökin okkar með því að gera það ekki eru í raun "Við hreinlega getum það ekki, sorrí, það bara er ekki hægt". En þegar Geir Haarde og hans ríkisstjórn ákváðu að tryggja allar innistæður á Íslandi, en ekki erlendis, voru þeir í raun að segja 'en við höfum samt efni á því að vernda suma'. Vissulega eru lagarök fyrir því að við 'þurfum' ekki að borga upp í topp, en sú lína er alveg sárlöskuð af þessari ákvörðun. Hún er hrein og klár mismunun.

Hvað í dauðanum vakti fyrir þeim með því? Þeir voru að vernda frekar lítinn hóp auðmanna, á kostnað þess að halda skildi þjóðarinnar frekar hreinum.

Ég held að á endanum borgum við að sjálfsögðu ekki upp í topp, við einfaldlega gætum það ekki. En við skulum andskotast til að borga lágmarksinnistæðurnar og hætta þessu væli. Þetta er okkar eigin gröf sem við erum komin ofaní.

Þá kemur inn á annað. Ég er mjög sáttur við að dómstólar skyldu kveða upp upp gengistryggðu lánin. En þá vaknar önnur spurning.

Nú eru þeir sem tóku slík lán að fá leiðréttingu langt umfram það sem aðrir fá, þrátt fyrir að hafa í raun tekið heimskulegustu ákvörðunina.

Er það sanngjarnt?

Mögulega, í ljósi þess að það var beinlínis verið að svíkja út úr þeim fé með því að bjóða þeim ólöglega samninga, en þetta situr illa í mér. Ég held að þessi þrautalending muni ekki duga mjög langt. Það eru miklu fleiri í vanda en þeir sem áttu gengistryggð lán, og bankarnir munu í raun neyðast til að ganga harðar að 'hinum' ef ekkert að gert. Það finnst mér ósanngjarnt.

Varúðarmerki?

Þannig er að ég þarf að skila inn skuldabréfinu mínu til LÍN, helst fljótlega.

Ekkert stóratriði þó ég fari með það eftir helgi, en ég hefði viljað nota daginn til að koma því niðureftir í dag.

En, af því þetta atvikaðist þannig að ég hélt að frumritið væri týnt, og hafði hugsað mér að fara og fá einhvers konar endurprentun hjá LÍN í dag, en hrósaði svo óvænt happi þegar ég fann frumritið í morgun, þá kom það á daginn að ég get skilað því inn í dag, ef ég bara skrifa undir það og fæ til þess tvo vitundarvotta.

...sem er eitthvað að vefjast fyrir mér.

Þannig er að fráþví ég vakna og þartil ég myndi vilja skreppa í hádegishléinu til að skila því inn hitti ég engan af mínum fjölmörgu vinum eða ættingjum. Og ég veit sem er að starfsmönnum LÍN er bannað að veita vottun.

Svo ég brá á það ráð að spyrja samstarfsfólk, sem ég átta mig á að er mögulega pínulítið óviðeigandi eftir stuttan samstarfstíma, en engu að síður taldi ég okkur hafa náð tiltölulega vel saman þessa rúmu viku sem ég hef verið hér. Eins væri mér töluvert létt ef ég þyrfti ekki að bíða þartil eftir helgi, svo ég ákvað að skoða þetta.

Fór það þannig að ég fékk einn vott, sem er stúlka sem ég vinn mest með, en enginn annar þóttist geta vottað það að ég væri í lagi til að skrifa undir hjá LÍN.

Þetta er það sem við í vinahópnum erum farnir að kalla George Costanza moment. Og nú halda örugglega allir sem ég vinn með að ég sé svo mikill kjáni að ég þekki engan sem er til í að skrifa undir hjá mér.

Og eina ástæðan fyrir því að ég deili þessu hér er að mér þykir þetta svo súrrealísk upplifun.

Wednesday, June 16, 2010

Fríríki Upplýsinga.

Er þetta raunhæft markmið?

http://www.smugan.is/frettir/frettir/nr/3567

Að skapa landinu sérstöðu þar sem tjáningarrétturinn er alger og frelsi upplýsinga í hámarki er glæsileg hugmynd.

Tjáningarfrelsið er lykilhluti af lýðræðishugtakinu.

Það þarf vissulega aðeins að skoða smáatriðin samt.

Verður löglegt að hvetja til ofbeldis? Að veita leiðbeiningar til, t.d. sprengjusmíða eða vopnagerðar?

Hvað göngum við langt í að leyfa rógburð og meiðyrði? Mun ég geta labbað um götur haldandi því fram fullum hálsi að hinir og þessir séu yfirlýstir svindlarar, morðingar eða nauðgarar? Gæti ég haldið úti fréttamiðli og haldið slíku fram á þeim grundvelli?

Hvað með viðkvæm mál, segjum að Íslenska ríkisstjórnin sé í samningaviðræðum við annað ríki, eða kannski ESB, og ég kemst yfir trúnaðarupplýsingar um samningsaðferðir og taktík íslensku sendinefndarinnar. Má ég þá fara með þær í blöðin þrátt fyrir að það myndi skaða mjög samningsstöðu landsins?

Ekkert af þessu er ástæða til að efast um ágæti þessarar hugmyndar. Ég myndi vilja að mjög langt yrði gengið til að hafa sem mest leyfilegt og tjáningar og upplýsingafrelsið sem viðamest.

Ef við ætlum að gera þetta þurfum við samt að skorða niður nákvæmlega hversu langt við ætlum að ganga.

Tuesday, June 15, 2010

Sumargleði

Það er ekki oft sem er sumar á Íslandi, en nú er eitt af þeim skiptum runnið upp.

Þegar svo ber undir hristi ég stundum af mér slenið og fer að gera hluti, mæta á æfingar, hugsa um mataræði og svoleiðis.

Í ár verður svo alveg nýtt. Í fyrsta lagi áskotnaðist mér ágætis reiðhjól, og er því miklu mun hreyfanlegri en á meðal sumri, og í dag mæti ég á æfingu með vinahópnum mínum í svona einka-bootcamp. Félagi minn hann Davíð tók það upp hjá sjálfum sér að þjálfa okkur, en maðurinn er verkfræði- og einkaþjálfaramenntaður og í fantaformi sjálfur.

Það verður áhugavert að sjá hvernig þetta fer allt saman.

Allavega um að gera að nýta veðurblíðuna, það er aldrei að vita hvað þetta sumar endist lengi, eða hvenær er von á því næsta.

Monday, June 14, 2010

Flutningar í gangi.

Nú hef ég ekki bloggað í töluverðan tíma. Vonandi rifjast þetta upp.

Hef svosem ekkert brennandi að segja akkúrat núna, en ákvað að ég þyrfti að koma mér af moggablogginu, þósvo ég hafi ekki notað það mánuðum saman. Mér fannst það naga mig að vera alltaf með einhvern prófíl þar og einhverja linka á mig þangað.

Er nokkur leið að bera virðingu fyrir mogganum þessa dagana annars?

Skiptir ekki öllu, þetta er meira svona prufufærsla, efast um að nokkur komi til með að lesa hana.