Friday, June 18, 2010

Ég ber ábyrgð.

Sanngirni? Réttlæti? Ábyrgð?

Þetta eru ekki flókin hugtök. En í reynd geta þau verið frekar erfið stundum.

Ég var t.d. að lesa viðtal í Grapevine við Vooral Gerard van Vliet (ég veit, fyndið nafn), hann er í forsvari fyrir hóp fólks sem tapaði sparifé sínu í Icesave reikningum. Í hans sérstaka tilfelli er það ennþá átakanlegra í ljósi þess að peningarnir á hans reikningi áttu að fara í hjálparstarf í Kenya.

Allavega, hann kemur inn á nokkra punkta sem hafa einmitt setið svolítið í mér undanfarið.

Eiga venjulegir borgarar íslands að bera ábyrgð á því sem bankarnir gera? Í stuttu máli, já. Það er nefnilega hin hliðin á lýðræðispeningnum.

Bankarnir gerðu það sem þeir gerðu, annars vegar vegna þess að löggjöfin var óljós og léleg, og hinsvegar vegna þess að eftirlit var allt allt of lítið.

Það eru ýmsar ástæður fyrir því að bankar geri slíkt. Aðallega ofmetnaður og andrúmsloft sem gerir mönnum hátt undir höfði sem virðast geta galdrað fram ótrúlegan gróða á skömmum tíma, án þess að spyrja of mikilla erfiðra spurninga. Það var orðið markmið stjórnvalda að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð.

Í okkar litla landi þarsem helmingaskipti aðal-valdaklíkanna eru lenska, þá auðvitað fór líka einkavæðingarferli bankanna út fyrir allt sem kalla má góða hagfræði. En basically, bankarnir fóru gífurlegu offari af hinum ýmsustu ástæðum. Eigum við að bera ábyrgð á því?

Við sem kusum alþingið til valda sem setti lögin, sem einkavæddi bankanna, sem hélt áfram að kjósa þessa vitleysinga allt fram undir hrun, og ennþá er fólk sem kinnroðalaust kýs Sjálfstæðisflokkinn eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Ríkisstjórnin og Alþingi bera ábyrgð á löggjöf og eftirliti með Fjármálastofnunum. Það er ekki flóknara en það. Það átti að vera LÖNGU búið að skala niður bankana eða senda þá úr landi. Það var ekki gert. Og við, sem þjóð í lýðræðisríki, berum ábyrgð á því Alþingi og þeirri ríkisstjórn sem við kjósum yfir okkur.

Og við erum öll hluti af þessari þjóð, hvort sem þú kaust Sjálfstæðisflokk, Framsókn, Vinstri Græna, skilaðir auðu eða sast heima á kjördag og horfðir á boltann. Þannig virkar þjóðfélagið. Þjóðin ber endanlega ábyrgð á sínu þingi. Við sitjum öll uppi með það sem kemur upp úr kjörkössunum, hvort sem við lendum í minnihluta eða meirihluta með það sem við kusum. Mögulega er það eitthvað ranglátt kerfi, en það er kerfið sem við búum við. En þá var það líka uppá okkur komið að breyta því kerfi, eða flytja úr landi ef við virkilega viljum enga ábyrgð bera á því sem á endanum kemst til valda.

Ef það kemur í ljós að þing og ríkisstjórn voru spillt og lugu að okkur, þá er það upp á okkur komið að hafa betra eftirlit með þeim, og kjósa þá ekki aftur og aftur.

Við þurfum að borga lágmarksinnistæður Icesave, svo mikið er víst. Ég held að Íslendingar þurfi að gera það sjálfsvirðingar sinnar vegna sem þjóð, þó ekki væri meira. Við vorum fullkomlega sátt við að gróðinn frá bönkunum héldu uppi þessari svakalegu bólu hérna og vorum tilbúin að trúa næstum hverju sem var öðru en sannleikanum til að útskýra hvað væri í gangi. Við, sem þjóð, skuldum þessu fólki peningana sína. Bankarnir báru ábyrgð á sínum skuldbindingum við sína innistæðueigendur og lánadrottna, og þeir brugðust. Alþingi og Ríkisstjórnin báru ábyrgð á eftirliti með bönkunum og reglugerð, og þau brugðust. Íslendingar, sem kusu þetta fólk, bera ábyrgð á sínu þingi og ríkisstjórn. Ætlum við að bregðast líka?

Hann van Vliet heldur áfram, og segir að við eigum í raun að borga allar Icesave innistæðurnar og ekki bara lágmarkstrygginguna. Það sem skelfir mig er að rökin hans fyrir því eru ágæt. Einu rökin okkar með því að gera það ekki eru í raun "Við hreinlega getum það ekki, sorrí, það bara er ekki hægt". En þegar Geir Haarde og hans ríkisstjórn ákváðu að tryggja allar innistæður á Íslandi, en ekki erlendis, voru þeir í raun að segja 'en við höfum samt efni á því að vernda suma'. Vissulega eru lagarök fyrir því að við 'þurfum' ekki að borga upp í topp, en sú lína er alveg sárlöskuð af þessari ákvörðun. Hún er hrein og klár mismunun.

Hvað í dauðanum vakti fyrir þeim með því? Þeir voru að vernda frekar lítinn hóp auðmanna, á kostnað þess að halda skildi þjóðarinnar frekar hreinum.

Ég held að á endanum borgum við að sjálfsögðu ekki upp í topp, við einfaldlega gætum það ekki. En við skulum andskotast til að borga lágmarksinnistæðurnar og hætta þessu væli. Þetta er okkar eigin gröf sem við erum komin ofaní.

Þá kemur inn á annað. Ég er mjög sáttur við að dómstólar skyldu kveða upp upp gengistryggðu lánin. En þá vaknar önnur spurning.

Nú eru þeir sem tóku slík lán að fá leiðréttingu langt umfram það sem aðrir fá, þrátt fyrir að hafa í raun tekið heimskulegustu ákvörðunina.

Er það sanngjarnt?

Mögulega, í ljósi þess að það var beinlínis verið að svíkja út úr þeim fé með því að bjóða þeim ólöglega samninga, en þetta situr illa í mér. Ég held að þessi þrautalending muni ekki duga mjög langt. Það eru miklu fleiri í vanda en þeir sem áttu gengistryggð lán, og bankarnir munu í raun neyðast til að ganga harðar að 'hinum' ef ekkert að gert. Það finnst mér ósanngjarnt.

2 comments:

  1. Þetta er beinlínis fullkomlega satt frá upphafi til enda og ég er algerlega sammála öllu sem kemur fram. Því miður.

    ReplyDelete
  2. Ég er ekki sammála.

    Í fyrsta lagi höfðu stjórnvöld aðeins það hlutverk að hafa eftirlit með bönkunum, ekki að greiða upp skuldir þeirra, og því gæti ábyrgð þjóðarinnar ekki verið sú að borga innistæðurnar jafnvel þó ábyrgð ríkisins væri réttilega okkar. Þetta er að vísu flókin umræða um rammatilskipun EES og neyðarlögin en ég er þeirrar skoðunar.

    Í öðru lagi er ég ósammála því að öll þjóðin beri ábyrgð á gjörðum fulltrúa sinna; þeir bera ábyrgð gagnvart okkur en við höfum aðeins takmarkað vald yfir þeim (óbeinar kosningar um ríkisstjórn á fjögurra ára fresti) og höfðum litlar upplýsingar um hversu illa þeir í raun fóru að ráði sínu. Réttmætri ábyrgð verður að fylgja raunhæft vald yfir ákvarðanatöku og það var ekki fyrir hendi í íslensku samfélagi og er það líklega hvergi. Að valdið liggi hjá þjóðinni er háfleyg kenning til nota á tyllidögum sem stenst því miður yfirleitt ekki nánari skoðun.

    Í þriðja lagi finnst mér afar hæpið að kenna öllum Íslendingum um gjörðir samsteypustjórna tiltekinna flokka, jafnvel þó þjóðin sem heild bæri réttmæta ábyrgð. Mér þykir ósanngjarnt að rukka hvern einasta Íslending um háar fjárhæðir vegna þess að ákveðnar samsteypustjórnir voru myndaðar með þingmeirihluta eftir kosningar á fjögurra ára fresti. Þeir sem ekki kusu ríkisstjórnarflokkana, sem skiluðu auðu og/eða börðust gegn ríkjandi kerfi geta varla talist bera ábyrgð á því að hafa "kosið þá aftur og aftur".

    Hvers vegna líka bara Íslendingar? Hvers vegna öll þessi áhersla á þjóðerni þegar stofnanir samfélagsins eru jafn ófullkomnar og raun ber vitni? Hvað ef allar ríkisstjórnir heims væru spilltar, bæri ég þá ábyrgð á spillingu hvar sem ég byggi?

    Að setja alla þjóðina í einn skuldagraut þegar kemur að mistökum ákveðinna Íslendinga getur verið praktískt óhjákvæmilegt, en ég sé ekki að það geti talist siðferðislega eða heimspekilega réttlátt.

    ReplyDelete