Er þetta raunhæft markmið?
http://www.smugan.is/frettir/frettir/nr/3567
Að skapa landinu sérstöðu þar sem tjáningarrétturinn er alger og frelsi upplýsinga í hámarki er glæsileg hugmynd.
Tjáningarfrelsið er lykilhluti af lýðræðishugtakinu.
Það þarf vissulega aðeins að skoða smáatriðin samt.
Verður löglegt að hvetja til ofbeldis? Að veita leiðbeiningar til, t.d. sprengjusmíða eða vopnagerðar?
Hvað göngum við langt í að leyfa rógburð og meiðyrði? Mun ég geta labbað um götur haldandi því fram fullum hálsi að hinir og þessir séu yfirlýstir svindlarar, morðingar eða nauðgarar? Gæti ég haldið úti fréttamiðli og haldið slíku fram á þeim grundvelli?
Hvað með viðkvæm mál, segjum að Íslenska ríkisstjórnin sé í samningaviðræðum við annað ríki, eða kannski ESB, og ég kemst yfir trúnaðarupplýsingar um samningsaðferðir og taktík íslensku sendinefndarinnar. Má ég þá fara með þær í blöðin þrátt fyrir að það myndi skaða mjög samningsstöðu landsins?
Ekkert af þessu er ástæða til að efast um ágæti þessarar hugmyndar. Ég myndi vilja að mjög langt yrði gengið til að hafa sem mest leyfilegt og tjáningar og upplýsingafrelsið sem viðamest.
Ef við ætlum að gera þetta þurfum við samt að skorða niður nákvæmlega hversu langt við ætlum að ganga.
No comments:
Post a Comment